Tuesday, March 24, 2009

Hvernig á að nota exem- og bólgueyðandi lyf






Fólk er oft óvisst hver mikið þarf að nota af útvortis lyfjum. Þá má styðjast við töflurnar hér að neðan:

Hve mikið á að nota í hvert skipti?



Wednesday, March 4, 2009

Bæklingur um kynsjúkdóma

Landlæknisembættið hefur gefð út nýjan bækling um kynsjúkdóma. Bæklinginn má nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar.

Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu Landlæknisembættisins:

Nýr bæklingur um kynsjúkdóma

Út er kominn á vegum sóttvarnalæknis bæklingurinn Kynsjúkdómar – Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. Bæklingurinn, sem er gefinn út bæði á prenti og í rafrænu formi, er saminn fyrst og fremst með þarfir ungs fólks í huga. Brýn þörf er á hentugu fræðsluefni um kynsjúkdóma fyrir þann aldurshóp enda er tíðni kynsjúkdóma, t.d. klamydíu, hæst meðal fólks á aldrinum 15–30 ára.

Umfjöllunarefni bæklingsins er, eins og nafnið bendir til, lýsing á smitleiðum kynsjúkdóma, einkennum þeirra og meðferð. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að verjast kynsjúkdómum auk þess sem veitt eru svör við algengum spurningum. Þá er bent á greiningarstaði og hlekki þar sem finna má nánari upplýsingar. Bæklingurinn er 28 blaðsíður og er ríkulega myndskreyttur. Ritstjórn bæklingsins var í höndum Sigurlaugar Hauksdóttur verkefnisstjóra en útlit og myndir annaðist Auglýsingastofa Þórhildar.

Ástráður, félag læknanema, HIV-Ísland – Alnæmissamtökin og fræðslan Tölum saman – samskipti foreldra og unglinga um kynlíf ásamt fleirum sem standa fyrir fræðslu um kynlíf og kynsjúkdóma í skólum landsins munu aðstoða Landlæknisembættið við að dreifa bæklingnum. Einnig verða heilsugæslustöðvum og lyfjaverslunum sendir bæklingar til kynningar. Aðrir áhugasamir, jafnt stofnanir og einstaklingar, geta haft samband við Landlæknisembættið og fengið bæklinga senda eða nálgast þá á vefsetri embættisins.

Sóttvarnalæknir vonast til þess að bæklingnum verði vel tekið og hann geti orðið hvatning til þeirra sem vilja afla sér upplýsinga um kynsjúkdóma.

Sigurlaug Hauksdóttir
yfirfélagsráðgjafi og verkefnisstjóri

Sunday, February 22, 2009

Sprungur í húð á höndum og fótum

Cyanoacrylate lím (Krazy glue, Super glue, Snabb Lim ) hafa verið notuð með góðum árangri við húðsprungum.

Þetta á við sprungur í húð á höndum og fótum sem ekki eru sýktar og valda sársauka. Þessi lím flýta einnig gróningu. Sprungur þessar geta orsakast af ýmsum húðsjúkdómum, og þá aðallega exemi og psoriasis.

  • Þvoið húðina vel og þurrkið vandlega. Kreistið varlega lítið magn af líminu ofan í sprunguna og þrýstið börmunum saman þannig að sprungan lokist. Venjulega nægja 1-2 dropar.
  • Haldið börmunum saman þar til sprungan er límd aftur.
  • Þetta tekur venjulega 30-60 sekúndur.
  • Forðist að fá of mikið lím á fingurna. Límist fingur saman berið þá naglalakkseyði á svæðið og flettið burt líminu þegar það hefur mýkst.
  • Cyanoacrylate lím er ekki eitrað, en varist þó að berist í augu.

Friday, February 13, 2009

Meðferð með Aberela og Differin geli

Aberela krem inniheldur A-vitamínsýru (tretinoin) sem er öflugt húðlyf, oftast notað gegn s.k. unglingabólum (acne vulgaris). Differin gel inniheldur skylt efni sem heitir Adapalene.
Verkun lyfjanna er á þann veg að húðin flagnar og tepptir gangar fitukirtla opnast. Fitukirtlarnir dragast saman og innihald kirtlanna þrýstist út á yfirborð húðarinnar og haldast kirtlarnir samandregnir svo lengi sem lyfið er borið á húðina. Þetta hefur einnig þau áhrif að fíngerðar grunnar hrukkur minnka þegar húðin flagnar auk þess sem húðin þykknar nokkuð.

Aukaverkanir:


Kremið og gelið eru nokkuð ertandi fyrir húðina vegna flögnunarinnar. Roði í andliti, mest áberandi í byrjun meðferðar og í sjaldgæfum tilfellum er smávægileg aukning á nýmyndun háræða í andliti. Nýjar graftarbólur geta myndast í húðinni eftir 1-6 vikur vegna aukins þrýstings inni í fitukirtlunum. þessi afturför gengur yfir og er oft merki um að lyfin verki vel.!

Leiðbeiningar:


Til að draga úr helstu aukaverkunum lyfjanna er gott að fylgja eftirfarandi ráðum:

  • 1. vika : Kremið eða gelið er borið á í þunnu lagi annað hvert kvöld en þvegið af með volgu vatni eftir 2-4 tíma.
  • 2. vika : Kremið eða gelið er borið á annað hvert kvöld en þvegið af að morgni með volgu vatni
  • 3. vika og þar eftir er kremið/gelið borið á öll kvöld og húðin þvegin með volgu vatni að morgni.

  • Nuddið kreminu/gelinu ekki inn í húðina, berið það á í þunnu lagi.
  • Ef enginn roði eða flögnun á sér stað má bera kremið/gelið á í aðeins þykkara lagi og nudda því örlítið inn í húðina.
  • Til að draga úr ofþornun húðarinnar er ráðlegt að bera á rakakrem eftir að húðin er þvegin.
  • Ef húðin roðnar mikið má lengja bilið milli þess sem kremið er borið á.
  • Stundum er nauðsynlegt að nota önnur útvortis lyf samtímis, eða jafnvel lyf til inntöku.

Árangur meðferðarinnar kemur oft ekki í ljós fyrr en að 2-3 mánuðum liðnum.

Best er að nota kremið/gelið í mun lengri tíma og þá e.t.v. annan hvern dag.




Tuesday, January 27, 2009

Nikkelofnæmi og fæðan

Ýmislegt bendir til að nikkel í fæðu geti haft þýðingu fyrir þá einstaklinga sem hafa snertiofnæmi fyrir nikkel. Margir telja að sé mikið nikkel í fæðunni sem neytt er geti handarexem versnað, sérstaklega sú tegund þar sem klæjandi vökvafylltar blöðrum eru í húðinni. Þeir sem hafa slæmt exem og hafa nikkelofnæmi geta reynt að forðast vissar fæðutegundir í 1-3 mánuði og kannað hvort exemið minnkar.

Nánari upplýsingar má finna hér....


Fyrir þá sem virkilega vilja kafa djúpt í þessi mál má finna afrit af all ítarlegum bækling um nikkel í fæðu. Bæklingurinn er á dönsku.

Húðvandamál hjá vélstjórum

Steingrímur Davíðsson Húðlæknir

Eftir því sem starfsumhverfi manna verður flóknara og tæknivæddara því fleiri tegundir efna komast í snertingu við húðina. Vélstjórar eru margir hverjir daglega í snertingu við olíur af ýmsum gerðum, leysiefni, sýrur og basa. Efni sem þessi geta valdið exemi, bruna, bólum og bólgum í hársekkjum. Þar að auki geta mörg leysiefni farið beint gegn um húðina, borist út í blóðstrauminn og valdið skemmdum á öðrum líffærum svo sem þvagblöðru og heila.

Exem

Exem er samheiti yfir marga húðsjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að bólga myndast í ysta lagi húðarinnar. Húðin verður rauð, flagnar eða hreistrar, springur oft og getur klæjað. Stundum myndast litlar vökvafylltar blöðrur. Exem getur orsakast af meðfæddri exem tilhneigingu og hafa þeir einstaklingar oftast þurra og viðkvæma húð. Exem getur einnig stafað af ofnæmi fyrir efnum sem komast í snertingu við húðina til dæmis nikkel og gúmmíefni. Exem getur einnig orsakast af ertandi efnum sem eyða vörnum húðarinnar svo þær bresta. Dæmi um þetta eru sápur og leysiefni. Algengt er að fleiri en ein orsök eigi þátt í myndun exems, til dæmis einstaklingur með meðfædda exemtilhneigingu sem fær roða og sprungur af of mikilli sápunotkun.

Ertandi efni

Vörn húðarinnar gegn umhverfinu er aðallega fólgin í ysta lagi yfirhúðarinnar. Þar eru dauðar húðfrumur sem er pakkað saman milli fituefna. Þetta lag er kallað hornlagið og er mjög þunnt, eða brot úr millimetra á stærstum hluta líkamans, en 1 millimetri eða meira í lófum og á iljum. Efni sem eyða fitu valda því að fitulagið sem heldur hornlaginu saman eyðileggst og innri lög húðarinnar verða opin fyrir vatni, efnum, bakteríum og ofnæmisvöldum eins og til dæmis nikkel.

Helstu ertandi efni sem vélstjórar komast í snertingu við eru:

  • Sápur
  • Hreinsiefni
  • Leysiefni
  • Kælivökvar
  • Olíur
  • Sýrur

Ofnæmisvaldandi efni

Mörg efni sem komast í snertingu við húðina geta valdið ofnæmi. Þegar ofnæmi fyrir ákveðnu efni hefur myndast eins og til dæmis nikkel, þá varir það oftast ævilangt. Ónæmisfrumur húðarinnar ,,muna” eftir efninu þannig að þó einstaklingur forðist efnið í mörg ár þá fær hann samt exem þegar efnið snertir aftur húðina. Oftast fylgir meiri kláði ofnæmisexeminu en ertingsexeminu.

Dæmi um ofnæmisvaldandi efni sem vélstjórar geta komist í snertingu við:

  • Rotvarnarefni í olíum og kælivökvum
  • Gúmmíefni í hönskum, leiðslum
  • Nikkel, kóbolt
  • Epoxy og akrýl plastefni í lakki og límum


Bólur

Sum efni geta valdið bólumyndun í húð ef þau eru nógu lengi í snertingu við hana. Dæmi um svona efni eru olíur, feiti og efni sem innihalda klór og bróm. Hinar eldri gerðir smurolía ollu oftar þessu vandamáli, en hinar nýrri gerðir gera það síður. Bólur sem orsakast af olíum koma oft á handleggi og læri. Þar sjást þá graftarbólur, rauðar upphækkaðar bólur og jafnvel svartir fílapenslar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Til að koma í veg fyrir exem af völdum ertandi og ofnæmisvaldandi efna er ráðlegt að nota hanska. Hanskarnir þurfa að vera þannig að efnin komast ekki í gegn um þá. Skipta þarf reglulega um hanskana svo þeir ekki mettist af efnunum. Allflest leysiefni fara í gegn um hanska sama hvaða gerðar þeir eru. Leysiefnin eru varasöm vegna þess að þau fara mörg viðstöðulítið gegn um húðina og út í blóðstrauminn eins og fyrr segir. Takmarka þarf því eins og hægt er snertingu slíkra efna við húð með hlífðarfatnaði og öðrum aðferðum. Til að fyrirbyggja handarexem þarf að nota mildar sápur við handþvott. Ráðlegt er að nota rakakrem eftir hvern handþvott. Margar tegundir slíkra rakakrema eru til. Sumum líkar illa að nota feit rakakrem vegna þess að það gerir hendurnar sleipar. Til eru aðrar tegundir sem ganga inn í húðina fljótlega eftir að þau eru borin á.

Til eru varnarkrem og froður sem mynda ósýnilega himnu á húðinni. Þessar afurðir hafa verið stundum verið kallaðar “ósýnilegir hanskar”. Efni þessi eru borin á húðina nokkrum sinnum á dag og verja þá hendurnar fyrir vatni, olíum og öðru ytra áreiti. Svona efni verja þó ekki húðina fyrir leysiefnum og þau geta ekki komið í staðinn fyrir hanska.



Birtist upphaflega í Skrúfunni

Monday, January 26, 2009

Snyrtivöruofnæmi

Allflestir íslendingar nota snyrtivörur. Til þessara vara teljast sápur, tannkrem, ýmis húðkrem, svitalyktareyðar, ilmvötn, rakspírar, varalitir, naglalökk, augnlitir, hárlitir,= efni til hármótunar og sólvarnarkrem. Þessar vörur hafa þýðingu fyrir vellíðan og heilsu þess sem notar þau og auka sjálfstraust í samskiptum við aðra.

Rannsóknir í Hollandi og Bretlandi hafa sýnt að 10-30 % þeirra sem nota snyrtivörur upplifa neikvæð áhrif við notkun þeirra. Við ofnæmisrannsóknir á þessu fólki kom í ljós að mikill minnihluti þeirra var með ofnæmi fyrir viðkomandi snyrtivörum. Þetta sýnir að oft er um ertingu eða eins konar óþol að ræða þegar fólk fær óþægileg eða neikvæð viðbrögð við notkun snyrtivara.


Smelltu hér til að lesa meira....

Kynfæraáblástur

Kynffæraáblástur hegðar sér eins og áblástur á vörum. Hægt er að sýna fram á áblásturssmit með mótefnamælingu í blóði. Á þann hátt sést að 70 til 80 af hundraði fullorðinna hafa komist í tæri við áblástursveiruna (herpes I) og 20 til 30 af hundraði hafa sýkst af kynfæraáblæstri (herpes II). Algengi kynfæraáblásturs hefur aukist jafnt og þétt í heiminum á síðustu árum.

Flösuexem er algengur kvilli

Flösuexem er algengur kvilli. Einkennin eru aukin flasa, kláði og roði í hárssverði. Flösuexemið getur lagst á önnur húðsvæði, s.s. andlit, bringu og nára. Talið er að algengur sveppur sem býr á líkama manna eigi þátt í meingerðinni.Hér að neðan er að finna bæklinga sem gefa nánari upplýsingar um sjúkdóminn og hverning má nota útvortis sveppalyf blöndð í shampó.

Sunday, January 18, 2009

Fræðslubæklingar

Á síðu bandaríska húðlæknafélagsins er að finna ráð til sjúklinga varðandi ýmsa húðsjúkdóma. Bæklingarnir eru allir á ensku.

Thursday, January 15, 2009

Kláðamaur

Kláðamaur (Sarcoptes Scabei) er lítið dýr, um 0,4 mm að lengd, sem lifir í hornlagi húðarinnar. Kvendýrið sest að í hornlaginu og getur borað sig áfram um 2 mm á dag um leið og það verpir 2-3 eggjum á dag. Eggin klekjast á 3 dögum en lirfan þroskast í fullorðið dýr á 2 vikum. Um 4-6 vikum eftir að maurinn hefur festst í húðinni myndast ofnæmi fyrir honum og veldur það miklum kláða, sem er verstur á kvöldin. Þegar kláðinn byrjar hafa flestir um 10-12 maura í húðinni Maurinn smitast við snertingu en hún þarf þó að vara í nokkurn tíma þannig smitar handarbandskveðja nær aldrei.

Smit á sér oftast stað á eftirfarandi hátt :


  1. Náin snerting.
  2. venjuleg umgengni á milli fjölskyldumeðlima, sérstaklega ef sameiginlegt baðherbergi er notað,
  3. notkun handklæða sem smitaður einstaklingur hefur notað,
  4. sólbaðstofubekkir sem smitaður einstaklingur hefur notað og er ekki nægjanlega þrifinn.

Eftir meðferð er kláðinn oftast til staðar í um 2 vikur eða jafnvel lengur. Afar mikilvægt er að greiningin sé rétt í upphafi, því meðferðin við maurnum getur framkallað kláða og jafnvel exem sem stundum er erfitt að greina frá maur eftirá.


Nokkur lyf eru til staðar sem gagnast við kláðamaur. Algengustu lyfin eru í áburðarformi. Þau eru : Quellada , Nix krem, Benzyli benzoatum, Tenutex, Prioderm.

Leiðbeiningar um meðhöndlun við kláðamaur:


  1. Meðferð skal gefin öllum meðlimum fjölskyldunnar. Mikilvægt er að allir fái meðferðina samtímis.
  2. Best er að hefja meðferðina að kvöldi dags. Ekki er nauðsynlegt að þvo sér sérstaklega áður en meðferð er hafin. Borið er á að nýju að morgni án þess að farið sé í bað, en um kvöldið (24 klst eftir að borið var á fyrst) er farið í bað.
  3. Best er að fá aðstoð við meðferðina þannig að allt yfirborð húðarinnar náist þegar áburðurinn er borinn á.
  4. Berið áburðinn á allan líkamann af mikilli nákvæmni en sleppið þó andliti og hársverði, því maurinn sest ekki þar nema á börnum undir tveggja ára aldri. Í þeim tilvikum skal haft samráð við lækninn.
  5. Börn undir 4 ára aldri þurfa oftast meðferð með sérstökum áburði, Benzyli Benzoatum en sá áburður er borinn á allan líkamann 3 kvöld í röð.
  6. Gleymið ekki að bera á milli táa, í nára, kringum endaþarm og kynfæri, í nafla og undir neglur.
  7. Ath að bera aftur á hendur eftir handþvott, t.d. eftir að farið er á salerni.
  8. Nauðsynlegt er að skipta á rúmum áður en áburðurinn hefur verið þveginn af. einnig skal farið í hrein nærföt. Athugið að þvo einnig öll handklæði. Skór og leðurfatnaður þarf að “hvílast” í 3-4 daga áður en það er notað að nýju.

Afhreistrun

Afhreistrun er mikilvæg fyrir meðhöndlun Psoriasis. Hún er líka mikilvæg fyrir meðferð hreistrandi húðsjúkdóma í hársverði svo sem flösuexems og psoriasis. Meðferð hefur að jafnaði ekki nægileg áhrif sé hreistur ekki fjarlægt. Þetta gildir fyrir ljósameðferð, D-vítamín afleiður eins og Daivonex, kortisónkrem, tjöru og Dithranol (Micanol).

Líkami:


  1. Farið í bað eða sturtu.
  2. Farið í gufubað sé möguleiki á því.
  3. Smyrjið útbrotin með Salicýlvaselíni 2%.
  4. Látið sitja á í 2-4 klst. eða yfir nótt.
  5. Þvoið líkamann með vatni og sápu.
  6. Endurtakið eftir þörfum

Hársvörður:


  1. Smyrjið í hársvörðinn ACP kremi eða mýkjandi kremi sem inniheldur annað hvort salicýlsýru eða carbamíd. Einnig má nota 2% salicýlsýru í spir. dil. eða þá salicýlolíu.
  2. Látið sitja í hársverði í 2-4 klst. eða yfir nótt.
  3. Sumum finnst gott að sofa með hettu á höfðinu eftir að kremið hefur verið borið í.
  4. Setjið svo sjampó í þurrt hárið og nuddið allan hársvörðinn létt með sjampóinu.
  5. Síðan er hárið þvegið með vatni.
  6. Endirtakið eftir þörfum

Kalíumböð

Kalium (kalíumpermanganat) böð eru góð meðferð við exemi sérstalega ef það er útbreitt og sýkt af bakteríum eða gersveppum. Þessi meðferð hefur verið notuð í marga áratugi og er notuð víða um heim.

Blanda á um það bil 3 millilítrum 3% kalíum permanganat lausnar í hvern lítra af volgu vatni . Börnin liggja í baðinu um 10-20 mínútur. Varast skal að börnunum verði of kalt. Má nota baðolíu út í vatnið ef húðin er mjög þurr. Þurrka húð og smyrja svo með rakakremi eða kortisón kremi. Þetta má endurtaka 2svar til 3svar í viku . Lausnin litar, þvo þarf að baðkarið strax eftir notkun, einnig er gott að nota handklæði sem má verða blettótt.

Gott er að nota hreinsilöginn Double play® til að ná brúna litnum burtu af baðkarinu.

Til að hindra að neglur litist brúnar er gott að bera á þær vaselín fyrir baðið. Fyrir hendur eða fætur má nota bala eða kar og þá blanda lausnina á sama hátt.


Lichen planus

Lichen Planus (LP) er nokkuð algengur húðsjúkdómur. Hann nefnist “Flatskæningur” á íslensku. Hann lýsir sér oft með klæjandi útbrotum við úlnliði, ökkla og neðst á baki.
Útbrotin eru rauð eða fjólublá. Þau eru oft nokkurra millimetra stór í hópum á þessum stöðum. Útbrotin geta líka verið margir sentimetrar í þvermál sérstaklega á fótleggjum.
Rispist húðin hjá einstaklingum með LP þá geta myndast dæmigerð LP útbrot í rispunni (Köbner fyrirbæri). Lichen Planus getur einnig verið í munnholi bæði bæði hjá fólki með og án sjúkdómsins í húðinni. Lichen Planus getur valdið breytingum á nöglum sem eru stundum varanlegar. LP getur einnig lagst á hársekki og valdið bólgubreytingum í hársverði og víðar. Þá kallast sjúkdómurinn Lichen Planopilaris



Ekki er vitað hvað veldur Lichen Planus. Talið er að breytingar sem verða á húðfrumum eða slímhúðarfrumum valdi því að ónæmisfrumur líkamans ráðist á þær og valdi bólgu, þykknun í húð og tímbundnum frumuskemmdum. Ástæða þessara breytinga eru taldar vera sýkingar af ýmsum toga bæði af völdum baktería og veira, sum lyf, ofnæmi fyrir tannfyllingarefnum og sjálfsofnæmi. Í flestum tilfellum finnst engin orsök fyrir Lichen Planus. Hann myndast oft hjá fullfrísku fólki og hverfur svo af sjálfu sér.

2/3 hlutar þeirra sem fá sjúkdóminn eru milli 30 og 60 ára. Börn og gamalt fólk getur líka fengið hann. 75% þeirra með LP í húð hafa einnig breytingar í slímhúðum. Í 25% tilfella er sjúkdómurinn einungis í slímhúðum.

Lichen Planus getur verið til staðar í mörg ár þar til einkennin hverfa. Í venjulegum tilfellum LP í húð eru 2/3 hlutar einstaklinga lausir við sjúkdóminn innan árs. Meðaltími sem fólk hefur LP í munnholi er 5 ár.

Meðferð sjúkdómsins getur stundum stöðvað gang hans og langoftast dregið verulega úr einkennum. Meðferð er alltaf einstalingsbundin og fer eftir útbreiðslu, staðsetningu, tímalengd sjúkdóms, einkennum, aldri.

Helstu lyf sem notuð eru:


  • Kortisón krem og vökvar
  • Calcineurin blokkarar (Protopic, Elidel)
  • Kortisón í töfluformi eða sprautuformi
  • Ljósameðferð (UVB og PUVA)
  • Antimalaríu lyf (td Plaquenil)
  • A vítamín afleiður (Neotigason)
  • Sýklalyf, sveppalyf eru stundum reynd
  • Ónæmisbælandi lyf (Methotrexat, Ciclosporin A)

Porfyria Cutanea Tarda

Porfyria Cutanea Tarda (PCT) er efnaskiptasjúkdómurþar sem lifrin myndar of mikið magn af porfyrinum. Þessi efni eru nauðsynleg fyrir líkamann, en í of miklu magni valda þau einkennum. Húðin og lifrin eru mest útsett.Tilhneigingin til af fá sjúkdóminn getur verið arfgeng.

Séu einstaklingar með þessa tilhneigingu getur langtímanotkun alkóhóls eða kvenhormón ( P-Pillan) komið sjúkdómnum af stað. Sé of mikið af járni í líkamanum heldur það sjúkdómnum í gangi. PCT getur líka byrjað eftir að viss skordýraeitur komast í líkamann, eða eftir meðferð í gervinýra.

Alkóhól

Notið ekki alkóhól. Þetta eykur myndun pofyrina og og þar með lifrarskaðann. Oft er það langvarandi notkun áfengis sem hefur útleyst sjúkdóminn. Oft hverfa húðeinkennin um 6 mánuðum eftir að áfengisneyslu er hætt.

Meðferð

Einkennin frá húðinni orsakast af því að porfyrín safnast fyrir í líkamanum, og oftast gerist þetta í sambandi við of miklar járnbirgðir í líkamanum. Meðferð með endurteknum blóðtökum er til að minnka járnbirgðirnar. Meðferð með klórókín ( Avloklor) veldur því að líkaminn skilur út porfyrinin með þvaginu. é ráðleggingum um alkóhól, lyf og líferni fylgt eru horfur góðar á því að húðbreytingarnar hverfi alveg.

Húðeinkenni

Porfyrin hafa þann eiginleika að breytast í frumuskemmandi efni skíni sól á þau. Þetta er orsökin fyrir því að sjúklingar með þennan sjúkdóm fá blöðrur á húðina í sól og húðin verður viðkvæm fyrir hnjaski. Sé sjúkdómurinn í gangi skal ekki vera í sól og reynt skal að skýla sig fyrir sólarljósi. Einnig getur ljós sem skín gegn um rúður verið skaðlegt. Einkenni geta komið nokkrum dögum eftir að sólin skín á húðina. Í sól skal nota sólvörn með háan faktor og vörn fyrir bæði UVA og UVB geislum. Einnig má nota hatt, bómullarhanska og sólhlíf.

Járn

Járn skiptir miklu máli fyrir sjúkóminn. Járnskortur heldur einkennum í burtu.

Lifrin

Ekki er óalgengt að lifrin sé sjúk. Sennilega er það samsöfnun á porfyrinum sem veldur þessu, og það er mikilvægt að auka ekki við skaðann. Forðast skal langtímanotkun lyfja sem geta skaðað lifrina.

Lyf

Ef þú leitar til læknis út af einhverju öðru skalt þú nefna Porfyriusjúkdóminn eigir þú að fá lyfjameðferð. Kvenfólk á helst ekki að taka lyf með Östrogenhormónum. Ekki skal taka lyf eða vítamínblöndur sem innihalda járn.

Granuloma Annulare

Granuloma Annulare (GA) er nokkuð algengur sjúkdómur í húð. Orsök hans er óþekkt. Ekki er talið að ofnæmi valdi honum og útbrotin verða aldrei illkynja. Hann getur komið fyrir á öllum aldri og kemur alloft fyrir hjá börnum. Útbrotin sitja oft djúpt í húð og eru gjarna hringlaga eða hálfmánalaga. Þau eru rauðleit eða rauðblá en geta verið húðlituð. Algengast er að fólk fái nokkrar breytingar á ristar, handabök, fótleggi og fingur. Útbrotin geta þó verið mjög útbreidd og verið víðar í húð. Oftast fylga útbrotunum engin óþægindi. Oft má finna þykknun í húðinni þar sem útbrotin eru.

Yfirleitt lagast Granuloma Annulare af sjálfu sér. Það getur tekið nokkra mánuði eða nokkur ár. Ýmis meðferð er til við GA. Má þar nefna kortisón krem og smyrsli eða kortisón lausn sem höfð er undir gervihúð. Einnig má sprauta kortisóni eða saltvatni inn í húðbreytingarnar. Ljósameðferð er stundum reynd. Oft þarf enga meðferð og er þá beðið eftir að útbrotin hverfi af sjáfu sér.

Kláði í kringum endaþarm

Pruritus ani er latína og þýðir kláði í endaþarmi. Þetta er mjög algengt vandamál. Þessi kláði getur komið frá húðsjúkdómum sem eru á svæðinu, en oft sjást engin merki um neinn slíkan sjúkdóm. Þegar ekki er um að ræða húðsjúkdóm sem orsakar kláðann er talið að margir þættir geti orsakað þetta vandamál.

Hægðir geta smitast frá endaþarminum á nálæga húð og ert þannig. Bæði geta þetta verið bakteríur og hvatar og önnur efni. Sum þessara efna geta valdið snertiofnæmi.
Orsakir þessa hægðasmits geta verið:
  1. Erfiðleikar við að hreinsa svæðið td vegna offitu, tíðni hægða, eða staðsetningar endaþarms og hárvöxts þar í kring.
  2. Hægðaleki, td vegna gyllinæðar, sepa eða sprungna í endaþarminum. Getur einnig verið vegna slapps hringvöðva.
  3. Bakteríusmit. Oftast er þetta þó afleiðing en ekki orsök vandamálsins.
  4. Matur og drykkur. Ekki er mikið vitað um þetta en sumir sjúklingar versna af vissum fæðutegundum, td kaffi og hnetum.
  5. Sálrænir þættir. Þetta er nú talið skipta minna máli en áður, og sálræn vandamál geta stundum orsakast af hinum sífellda kláða.

Meðferð:
Notið nærföt sem eru ekki þröng (Boxarabuxur).
Finnist eitthvað sjúklegt við skoðun td stór gyllinæð eða sprungur þá er rétt að fá álit skurðlæknis.

Notið sem minnst af kortisónkremum. Þó eru slík krem og stílar hjálpleg séu þau notuð í stuttan tíma í einu.

Eftir hægðir skal þrífa svæðið með blautum salernispappír eða kremservéttum sem fást í apótekum.

Nuddið aldrei svæðið. Það heldur við kláðanum.

Notið kláðastillandi krem td. Zink pasta með 2 % phenol fyrir og eftir hverjar hægðir, og einnig fyrir svefn.

Perioral dermatitis

Perioral Dermatitis er nokkuð algengur húðsjúkdómur. Kemur oftar fyrir hjá kvenfólki. Sumir fá sjúkdóminn endurtekið jafnvel einu sinni á ári. Margir telja Perioral Dermatitis vera skyldan Rosacea húðsjúkdómnum (Rósroða). Orsök er óþekkt. Upp hafa komið tilgátur um of mikil notkun andlitskrema geti valdið þessu, eða óþekktur sýkill. Vitað er að breytingarnar geta komið noti fólk sterk kortisónkrem í andlitið í nokkurn tíma.

Ástandið lýsir sér með litlum upphækkunum í húðinni kring um munninn, ásamt breytingum sem líkjast örsmáum graftrabólum. Stundum sjást einungis bólur og roði kring um nasavængina, sérstaklega hjá börnum Roði er og oft vægar exembreytingar. Dæmigert er að húðin næst vörunum er oftast ósýkt. Stundum eru breytingarnar ofar í andlitinu, td kring um augun.

Með réttri meðferð eru batalíkur góðar. Oftast nægir sýklalyf af Tetracýklín flokki í nokkrar vikur til að lækna sjúkdóminn til dæmis Doxytab. Einnig er hægt að nota sýklalyfin Ery-Max eða Erybas. Í vægum tilfellum má nota útvortis lyf svo sem Metronidazol krem, Skinoren krem eða Finacea gel.

Unglingabólur

Acne vulgaris er húðsjúkdómur sem orsakast af breytingum í fitukirtlum húðarinnar. Fitumyndun í kirtlunum eykst, op þeirra þrengjast eða lokast. Bakteríur fjölga sér í fitukirtlunum og þá myndast bólga og gröftur. Fitumyndun kirtlanna er stjórnað af hormónum. Acne breytingar eru aðallega í andliti, en einnig á bolnum, aðallega herðum og bringu.

Breytingarnar eru af nokkrum gerðum:


  • Opnir fílapenslar, svartir
  • Lokaðir fílapenslar, hvítir
  • Papúlur, rauðar upphækkanir
  • Pústúlur, eins og graftarbólur
  • Djúpar breytingar

Acne er algengur sjúkdómur. Byrjar oftast á unglingsárum. Getur hafist mun seinna á æfinni. 35-40 % allra fá acne. Talið er að um 1 % karla og 5 % kvenna hafi umtalsverða acne við 40 ára aldur. Sjúkdómurinn byrjar stundum hjá fullorðnu fólki sem ekki hefur haft breytingar sem unglingar.

Orsakir:

Erfðþættir skipta máli. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skipti máli, en sumir sjúklingar upplifa versnun af vissum mat. Óhreinindi í húð orsaka ekki acne. Því er ekki hægt að þvo breytingarnar burt. Beint samband er milli acne og aukinnar fituframleiðslu í húð. Fituframleiðslan í húðinni stjórnast meðal annars af karlhormónum (androgenum). Karlar með acne hafa venjulega ekki aukið magn karlhormóna, en 50-75% kvenna með acne hafa ójafnvægi á kynhormónum.

Sýnt hefur verið fram á að útgönguop fitukirtla þrengjast hjá acne sjúklingum vegna aukinnar frumumyndunar þar. Góðkynja húðbakteríur setjast að í fitukirtlunum og fjölga sér (Propinibacterium acnes). Þessar bakteríur gefa frá sér efni sem laða að hvít blóðkorn, og valda þannig bólgubreytingum.

Meðferð:

Fyrir milda acne nægir útvortis meðferð. þær helstu eru :

Sýklalyf ( Zineryt, Dalacin) sem minnka fjölda baktería í fitukirtlunum.
  • Benzoyl Peroxid (Benoxyl, Panoxyl) sem fækka bakteríum og fjarlægja fílapensla.
  • A-Vítamínsýra ( Retin-A) sem aðallega hefur áhrif á fílapenslana.
  • Azelaic acid (Skinoren, Finacea) hefur bakteríudrepandi áhrif og einhver áhrif á fílapensla
  • Við verri acne eru oft gefin sýklalyf til inntöku. Þessi lyf fækka bakteríum í fitukirtlunum og eru einnig bólgueyðandi. Oftast eru gefin afbrigði af tetracýklínum ( Doxytab, Minocin, Tetracyklín). Einnig má gefa erythromycin ( Ery-Bas, Ery-Max) Sýklalyfin eru gefin í langan tíma, því að full virkni kemur oft ekki fram fyrr en eftir 3-4 mánuði.
  • Fyrir verstu tegund acne og þegar önnur meðferð hefur ekki áhrif er gefið lyfið Isotretinoin (Decutan, Roaccutan). Þetta lyf hefur áhrif á alla þætti acne myndunar. Talsverðar aukaverkanir eru af þessu lyfi, svo sem þurrkur í öllum slímhúðum, vöðvaverkir og þreyta. Einnig er lyfið skaðlegt fyrir fóstur.
  • Konum með acne er stunduð gefið hormónalyf sem dregur úr áhrifum karlkynshormóns ( Diane Mite). Þetta lyf ásamt sumum öðrum getnaðarvarnarpillum er því bæði getnaðarvörn og meðferð við bólum.
Fyrir alla meðferð gildir að hafa þolinmæði. Ekki er nóg að nota lyfin í nokkrar vikur og hætta síðan.

Nánari upplýsingar um unglingabólur má fá hér.

Psoriasis

Psoriasis er sjúkdómur sem situr í húð, nöglum og stundum í liðamótum. Hann hefur ekki áhrif á lífslengd fólks.Psoriasis er ekki smitandi. Flestir hafa sjúkdóminn á vægu stigi, en mismunandi er hve mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf manna.Gangur Psoriasis er oft sá að það koma tímabil þar sem húðbreytingarnar versna og síðan tímabil þar sem sjúkdómurinn er í rólegum fasa.

Hægt er að halda húðbreytingunum niðri með ýmsum aðferðum, en í dag er ekki til nein fullnaðarlækning. Sjaldgæft er að Psoriasis hverfi algerlega, en það er þó til. Talið er að um 2 % vestrænna manna séu með Psoriasis. Sjúkdómurinn er því algengur. Mun lægri tíðni er meðal gula kynstofnsins. Sjúkdómurinn byrjar oft milli 10 og 20 ára. Að jafnaði koma einkennin fyrr fram hjá kvenþjóðinni. Þegar Psoriasis byrjar hjá ungu fólki er hann oftar til í fjölskyldunni en þegar sjúkdómurinn byrjar hjá eldri. Hlutfall milli kynja er jafnt.

Vitað er að Psoriasis er ættgengur sjúkdómur. Það er hins vegar ekki vitað hvernig hann erfist. Talið er að hafi annað foreldrið Psoriasis þá séu 16 % líkur á að barn fái sjúkdóminn. Hafi hins vegar báðir foreldrar sjúkdóminn eru 50 % líkur á að hvert barn fái Psoriasis. 36 % Psoriasis sjúklinga hafa amk einn í fjölskyldunni með sjúkdóminn.

Þættir sem hafa áhrif á Psoriasis


  • Sýkingar: Streptococca bakteríusýkingar í hálsi geta komið af stað Psoriasis og einnig valdið versnun hans.
  • Álag á húð: Skrámur, sólbruni, núningur og annað álag á húðina getur valdið því að Psoriasis breytingar setjast þar.
  • Lyf: Lyf sem geta valdið versnun Psoriasis eru blóðþrýstingslyf í Beta Blokkera flokknum ( Atenólól, Tensól, Inderal ofl. ), Líthíum,
  • Kortisón töflur ( þegar hætt er með þær) og Malaríulyf.
  • Stress: Ekkert hefur sannast í þessum efnum, en þó er hugsanlegt að útbreiðsla sjúkdómsins aukist við andlegt álag.
  • Áfengi: Ofdrykkja er algengari meðal karla með slæman Psoriasis en annara karla. Líklegt er að bæði óhófleg áfengisneysla og reykingar hafi slæm áhrif á sjúkdóminn.
  • Ef að þungun breytir eitthvað gangi Psoriasis þá er það yfirleitt til batnaðar.

Einkenni

Útlit Psoriasisbreytinganna getur verið margs konar. Oftast sjást laxableikar velafmarkaðar breytingar af ýmsum stærðum. Algengast er að breytingarnar séu á olnbogum, hnjám, í hársverði og fótleggjum. Misjafnt er hversu mikið breytingarnar hreistra. Stundum blæðir eins og í nokkrum punktum þegar hreistrið er tekið af. Breytingarnar eru oft þykkar. Fjöldi breytinga geta verið frá 1 til nokkur hundruð.

Útbreiðsla er mismunandi. Dropapsoriasis er margir litlir blettir sem dreifðir eru um allan líkamann. Þetta form kemur oft snögglega og þá eftir bakteríuhálsbólgu. Algengasta formið er nokkrar fremur stórar breytingar sem eru stundum samhangandi. Til eru form sem einkennast af litlum og stórum graftrarbólum. Einnig er til sjaldgæft form þar sem nánast allt yfirborð líkamans verður rautt, og fólk með þetta er oft mikið veikt. Breytingar í nöglum eru hjá 25 - 50 % Psoriasis sjúkl ef vel er að gáð. Þær einkennast oft af litlum holum í yfirborði naglanna, og einnig þykknun undir þeim. Oft losna neglurnar fremst.

Meðferð

Meðferð miðast við að ná burtu psoriasis breytingunum. Þegar þessu markmiði hefur verið náð er vonast til að batinn haldist sem lengst. Vegna þess hve gangur sjúkdómsins er mismunandi geta breytingarnar horfið án nokkurrar meðferðar, en koma svo oftast tilbaka. Reyna skal að halda sér í góðu formi bæði andlega og líkamlega. Þetta bætir hæfnina til að ráða við Psoriasis sjúkdóminn. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skifti máli fyrir Psoriasis.

Oftast er staðbundinn Psoriasis meðhöndlaður með útvortis lyfjum í byrjun. Algengast nú er Daivonex, Kortisónkrem og Ditranól. Einnig er hægt að nota tjöru. Ljósameðferð er oft notuð, og þá oftast af gerðinni UVB. Þetta eru sterkari geislar en í venjulegum ljósabekkjum. Einnig er notuð svokölluð PUVA meðferð þar sem teknar eru inn töflur sem gera húðina ljósnæma fyrir ljósameðferð. Við slæmum Psoriasis eru stundum notuð hylki sem skyld eru A vítamíni (Neo-Tigason) og einnig lyf sem hafa áhrif á frumuskiptingu og ónæmiskerfið ( Metotrexat, Cyclosporin)
  • Calcipotriol (Daivonex): Er ein algengasta útvortis meðferðin í dag. Er skylt D Vítamíni og hefur áhrif á hina öru frumuskiftingu í Psoriasis breytingunum. Tiltölulega laust við aukaverkanir. Sumir fá ertingu í húðina umhverfir breytingarnar. Berist áburðurinn í andlit þá getur húðin þar bólgnað. Hentar vel á stórar staðbundnar breytingar á útlimum og bol.
  • Kortisónkrem: Þetta er oft besta meðferðin fyrir Psoriasis í andliti og á hálsi , og einnig á kynfæri og nára og handarkrika. Kostir kortisónkremanna eru að þau erta ekki, eru oft fljótvirk, lita ekki föt og eru snyrtileg að nota. Ókostir eru að sterk kortisónkrem í miklu magni geta haft áhrif á nýrnahettur, og mikil notkun í andlit og á lokuð svæði getur valdið æðabreytingum og húðsliti. Sterk kortisónkrem geta valdið húðþynningu ef þau eru notuð lengi, en sú þynning gengur oftast tilbaka þegar notkun er hætt.
  • Tjara: Meðferð með tjöru er gömul meðferð sem er oft notuð með ljósameðferð. Ekki er alveg vitað hvernig tjaran virkar. Kostirnir eru þeir að tjaran er örugg og góð meðferð.
  • Ókostir eru þeir að meðferðin er óþrifaleg og tímafrek. Fyrir Psoriasis í hársverði er tjara af mörgum talin vera besta meðferðin. Tjörusjampó eru td. T-Gel sjampó, Doak tjörusjampó og Polytar.
  • Dítranól: Þetta er efni sem er skylt gömlu Psoriasis lyfi sem unnið var úr trjáberki. Dítranól er oft notað með ljósameðferð og líka tjöru. Kostir eru þeir að árangur er oft góður og aukaverkanir litlar. Ókostir eru að efnið litar klæði og er ertandi fyrir húð. Nú er oft erfitt að fá þetta lyf.
  • Ljósameðferð: Sá hluti útfjólublárra geisla sem kallaður er UVB er oftast notaður. Þetta eru annars konar geislar en í venjulegum ljósabekkjum. Oftast eru notuð svokölluð “narrow band” ljósrör sem gefa bestan árangur. Venjulegir ljósabekkir hafa óveruleg áhrif á Psoriasis. UVB meðferðin er gefin 3-5 sinnum í viku. Mismunandi er hve langan tíma þarf til að losna við breytingarnar. Nota má aðrar meðferðir jafnframt ljósunum td Daivonex. Ekki hefur verið sýnt fram á að hefðbundin UVB meðferð valdi aukinni hættu á húðkrabba. Til eru UVB lampar af ýmsum gerðum allt frá stórum klefum niður í einföld tæki til heimanotkunar.
  • PUVA: Þetta er ljósameðferð sem notuð er við slæmum Psoriasis sem ekki lætur undan hefðbundnum meðferðum.
  • Meðferðin er gefin 2-4 sinnum í viku og fer þannig fram að sjúklingarnir taka inn töflur 1-2 klst fyrir ljósameðferð með útfjólubláum geislum af gerðinni UVA. Þessar töflur gera húðina mjög ljósnæma. Sjúklingar þurfa að ganga með sérstök sólgleraugu allan meðferðardaginn. Sumir fá ógleði af töflunum. Aukin hætta er á húðkrabbameini eftir ákveðinn fjölda meðferða. Ekki hefur þó verið sýnt fram á aukningu sortuæxla við PUVA meðferð.
  • Neotigason: Þetta lyf er skylt A vítamíni. Það er notað gegn útbreyddum Psoriasis af pustuler gerð og einnig gegn slæmum Psoriasis með PUVA. Notkun takmarkast vegna aukaverkana sem eru þurrkur í öllum slímhimnum, hækkun á blóðfitum , fósturskaðar ofl.
  • Methotrexat: Þetta er lyf sem hefur áhrif á frumfjölgun í húð, og er einnig notað gegn ýmsum krabbameinum. Er oftast gefið einu sinni í hverri viku.
  • Er gott lyf við slæmum Psoriasis. Er einnig mikið notað við psoriasis gigt. Reynist oft vel sem langtímameðferð en fylgjast þarf vel með lifrarstarfsemi meðan á meðferð stendur til að koma í veg fyrir aukaverkanir.
  • Cyclosporin: Þetta er ónæmisbælandi lyf. Hefur verið notað við Psoriasis sem svarar ekki annari meðferð. Takmarkandi þáttur er áhrif lyfsins á nýru.
  • Bíólógísku lyfin: Þetta eru lyf sem hafa áhrif á eitilfrumur í húð. Talið er að þessar frumur (T-eitilfrumur) gegni lykilhlutverki í psoriasis. Nokkrir flokkar eru til. Lyfin hemja merkjasendingar milli eitilfrumnanna og minnka þannig bólgusvörun þeirra í húðinni. Talsverð þróun er þessum lyfjaflokkum og meðal þeirra eru öflugustu psoriasis lyfin. Þau eru mjög dýr og þarf að gefa með sprautum undir húð eða í æð.

Psoriasisgigt

Psoriasisgikt er talin koma hjá 7-20 % Psoriasissjúklinga. Algengust er Psoriasis gigt hjá þeim sem hafa útbreiddan Pustuler Psoriasis eða útbreiddan roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða. Oft tengjast naglabreytingar psoriasisgigt í höndum. Oftast situr Psoriasisgigtin í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum.
Oftast meðhöndluð með bólgueyðandi lyfjum. Slæm tilfelli eru meðhöndluð með Methotrexati eða bíólógísku lyfjunum.

Vetrarfætur

Atopiskir vetrarfætur eur ekki óalgengur húðsjúkdómur og sést oftast hjá börnum 3-14 ára. Sjúkdómurinn byrjar oft sem roði og verkur í húðinni á iljunum við tábergið. Einnig er húðin undir stórutánum oft slæm. Húðin verður oft sprungin og glansandi. Húðin er venjulega verst þar sem álagið kemur á fótinn en betri í holilinni. Oftast eru báðir fæturnir álíka slæmir.

Orsakir:

Orsökin er óþekkt. Sumir telja að með auknum gerviefnum í sokkum á síðustu árum hafi þessi sjúkdómur orðið algengari. Einnig gætu lokaðir skór sem anda lítið skipt máli. Fæturnar séu því í heitara og rakara umhverfi en áður fyrr sérstaklega hjá börnum sem ganga mikið í íþróttaskóm. Þetta umhverfi í skónum orsaki síðan áðurnefndar breytingar í húðinni.Aðrir hallast að því að sífelldur núningur á fótum til dæmis í sambandi við íþróttir eigi þátt í þessu. Engin algild skýring er þó til. Vitað er að mörg þessara barna hafa haft barnaexem (atopiskt eksem) eða það fyrirfinnst í fjölskyldunni.

Meðferð:

Engin meðferð er til sem læknar sjúkdóminn. Allra flest börnin læknast af sjálfum sér með tímanum, en sjúkdómurinn getur haldið áfram fram á unglingsár. Sjúklingar ættu að ganga í 100% bómullarsokkum og leðurskóm eða sandölum. Ýmsar tegundir krema hafa verið reyndar, en engin ein tegund hjálpar öllum. Mýkjandi krem má reyna sérstaklega þau sem innihalda carbamid. Einnig geta krem sem fást í apótekum eins og PDS frá Neostrata, ACGV eða rakakrem eins og Repair reynst ve

Litabrigðamygla (Pityriasis versicolor)

Þetta er nokkuð algengur húðsjúkdómur . Hann orsakast af ákveðinni tegund af gersvepp sem er á húðinni hjá öllu fólki. Hjá sumum virðist sem sveppurinn fari að fjölga sér undir ákveðnum kringumstæðum, og þá koma húðbreytingarnar fram. Sýkingin er algengust hjá ungu fólki. Sjúkdómurinn er algengari í röku heitu loftslagi. Þetta er tiltölulega góðkynja sveppategund sem eingöngu finnst á húðinni. Sennilega á þessi sveppur þátt í myndun flösu og flösuexems.


Einkenni


Oftast eru flekkir á húðinni sem stundum valda vægri ertingu. Stundum eru þeir hvítir, og er þetta vegna þess að sveppurinn hefur áhrif á litarfrumur í húðinni. Liturinn verður yfirleitt eðlilegur nokkrum mánuðum eftir árangursríka meðferð. Blettirnir geta líka verið brúnir og rauðbrúnir. Oftast sitja breytingarnar á bolnum.
Þar sem þessi sveppategund er hluti af eðlilegri flóru húðarinnar koma húðbreytingarnar oft aftur eftir meðferð. Stundum er þá húðin meðhöndluð fyrirbyggjandi 1-2svar í viku.

Meðferð er margskonar.


  • Hægt er nota Fungoral sápu 3 daga í röð. Þá er sápan borin á allan bolinn og höfð á í 5 mínútur áður en hún er skoluð burt.
  • Hægt er að nota Fungoral krem 2svar á dag í td. 2 vikur.
  • Nota má Selsun sjampó annað hvert kvöld í 2 vikur. Þá er sápan borin á að kveldi og þvegin af að morgni.
  • Nota má 50 % Propylen Glykol lausn 2svar á dag í 2 vikur, og síðan einu sinni í viku.
  • Pevaryl úðaáburður 2svar á dag í 2 vikur. Síðan einu sinni á dag á 2ja vikna fresti til að forðast að sýkingin komi aftur.
  • Sveppalyf til inntöku. Td Sporanox 100 mg 1hylki 2svar á dag í vikutíma . Til að hindra að sýkingin taki sig upp á ný er hægt að gefa 2 hylki 2svar á dag, 1 dag í hverjum mánuði í 6-12 mánuði. Annað lyf til inntöku er Diflucan 300 mg í einum skammti 2svar sinnum með viku millibili.




Rósroði (rosacea)

Rosacea (rósroði) er langvinnur sjúkdómur sem yfirleitt fer fyrst að láta á sér kræla upp úr þrítugu. Sjúkdómurinn lýsir sér með roða, bólum, graftrarbólum æðaslitum og stundum þrota í andliti. Það eru ekki til greinargróðar upplýsingar um algengi sjúkdómsins. Það vill þó þannig til að sænskur kunningi minn, Mats Berg ásamt Sture Lidén prófessor hefur gert þá rannsókna sem oftast er vitnað til að því er varðar nýegngi. Í rannsókn þeira félaga kom í ljós að algengi rósroða í Svíþjóð var 14% hjá konum og 5% hjá körlum. Þrát fyrir að sjúkdómurinn sé algengari hjá konum eru erfiðustu tilvikin oftast hjá körlum. Það er talið að það stafi af því að karlar leiti sér seinna hjálpar en konur og þá er erfiðara að eiga við sjúkdóminn.

Rósroði er algengari hjá þeim sem hafa ljósa húð, frekar en dökka og sjúkdómurinn kemur oftar fram hjá þeim sem strax í æsku roðna auðveldlega. Það er ekki hægt að lækna rósroða en mikið hægt að gera til að hægja á sjúkdómnum og draga úr einkennum. Með tilkomu lasertækninnar er í sumum tilvikum sé hægt að lækna sjúkdóminn varanlega, eða leggja hann í dvala í nokkur ár.

Jón Þrándur Steinsson Húðsjúkdómalæknir hefur skrifað greinargott yfirlit yfir rósroða. Grein Jóns Þrándar má finna hér.

Ekki auðvelt fyrir rósroðasjúklinga að búa á Íslandi segir Bárður Sigurgeirsson húðsjúkdómalæknir. Viðtal við Bárð um rósroða birtist nýlega í Vikunni. Vitalið er að finna hér að neðan.

Rósroði er oft þrálátur í köldum löndum. Húðlæknatöðinni hafa borist margar fyrirspurnir um þenna hvimleiðasjúkdóm. Svör við einni slíkri fyrirspurn má finna hér.

Fæðuóþól og fæðuofnæmi

Fæðuofnæmi ekki eins algengt og margir hald. í könnunum kemur fram að um 30% fullorðinna telja sig hafa fæðuonæmi á meðan raunverulega talan er undir 2%. Fæðuóþol er algengara. Hér á eftir er að finna ganglegan bækling fyrir þá sem þjást af fæðuofnæmi eða fæðuóþoli.

Sveppasýking á kynfærum

Wednesday, January 14, 2009

Fæða fyrir sjúklinga með Urticaria (Ofsakláða)


Urticaria er algengur sjúkdómur. Helstu orsakir eru sýkingar, lyf og ofnæmi fyrir fæðutegundum. Urticaria getur verið langvarandi. Þá eru einkenni að koma öðru hvoru jafnvel árum saman. Einkennin lýsa sér með rauðleitum upphækkuðum flekkjum í húð sem koma fram og hverfa síðan á innan við sólarhring.

Oft finnst engin orsök þessa ástands. Talið er að í sumum tilfellum geti Salicylsýra, rotvarnarefni og litarefni í mat skipt máli. Hér koma nokkrara fæðutegundir sem innihalda mjög lítið af þessum efnum. Mikilvægt er að halda sig eingöngu við þessar fæðutegundir. Lítið frávik getur eyðilagt áhrifin af margra daga matarkúr.

Þetta má borða:


Vatn, Sódavatn, mjólk, rjómi, súrmjólk, jógurt án ávaxta.
Kartöflur, hrísgrjón, hveiti, sykur, salt, ólitað spaghetti, kornflex.
Egg, smjör, smjörlíki (ekki hitaeiningasnautt), matarolía.
Keso ostur, Port Salut ostur.
Ferskt eða fryst nautakjöt, lambakjöt eða svínakjöt.
Ferskur eða frystur fiskur.
Brauð, heimabakað kaffibrauð.
Salat, tómatar, laukur, gulrætur, dill, persilka, ferskir sveppir,
Perur

Ekki skal taka inn neina tegund af lyfjum, þar með talin verkjalyf nema ræða það fyrst við lækni

Forðast skal sérstaklega:


Lituð ber, möndlur, epli, rababara, ólívur, aprikósur, döðlur, baunir, plómur.
Gosdrykki, marmelaði, kartöfluflögur, sultu, ávaxtadrykki, sósur, majones, tómatsósu.
Litað tannkrem.

Meðferð með retínóíðum

Meðferð með Aberela kremi og Differin geli

Aberela krem inniheldur A-vitamín sýru (tretinoin) sem er öflugt húðlyf, oftast notað gegn s.k. unglingabólum (acne vulgaris). Differin gel inniheldur skylt efni sem heitir Adapalene. Verkun lyfjanna er á þann veg að húðin flagnar og tepptir gangar fitukirtla opnast. Fitukirtlarnir dragast saman og innihald kirtlanna þrýstist út á yfirborð húðarinnar og haldast kirtlarnir samandregnir svo lengi sem lyfið er borið á húðina. Þetta hefur einnig þau áhrif að fíngerðar grunnar hrukkur minnka þegar húðin flagnar auk þess sem húðin þykknar nokkuð.

Aukaverkanir:

Kremið og gelið eru nokkuð ertandi fyrir húðina vegna flögnunarinnar. Roði í andliti, mest áberandi í byrjun meðferðar og í sjaldgæfum tilfellum er smávægileg aukning á nýmyndun háræða í andliti. Nýjar graftarbólur geta myndast í húðinni eftir 1-6 vikur vegna aukins þrýstings inni í fitukirtlunum. þessi afturför gengur yfir og er oft merki um að lyfin verki vel.!


Leiðbeiningar:

Til að draga úr helstu aukaverkunum lyfjanna er gott að fylgja eftirfarandi ráðum:

1. vika : Kremið eða gelið er borið á í þunnu lagi annað hvert kvöld en þvegið af með volgu vatni eftir 2-4 tíma.
2. vika : Kremið eða gelið er borið á annað hvert kvöld en þvegið af að morgni með volgu vatni
3. vika og þar eftir er kremið/gelið borið á öll kvöld og húðin þvegin með volgu vatni að morgni.

Nuddið kreminu/gelinu ekki inn í húðina, berið það á í þunnu lagi. Ef enginn roði eða flögnun á sér stað má bera kremið/gelið á í aðeins þykkara lagi og nudda því örlítið inn í húðina. Til að draga úr ofþornun húðarinnar er ráðlegt að bera á rakakrem eftir að húðin er þvegin. Ef húðin roðnar mikið má lengja bilið milli þess sem kremið er borið á. Stundum er nauðsynlegt að nota önnur útvortis lyf samtímis, eða jafnvel lyf til inntöku. Árangur meðferðarinnar kemur oft ekki í ljós fyrr en að 2-3 mánuðum liðnum. Best er að nota kremið/gelið í mun lengri tíma og þá e.t.v. annan hvern dag.

Almenn ráð um fótsveppasýkingar

Húðlæknarnir Bárður Sigurgeirsson og Jón Hjaltalín Ólafsson hafa ritað grein um fótsveppi. Hér má t.d. finna upplýsingar um sjúkdómin og ýmis lamenn ráð til að koma í veg fyrir endursmit.

Ýmsar örverur lifa í og á líkama okkar undir eðlilegum aðstæðum en valda okkur ekki skaða, og í sumum tilvikum eru þær beinlínis gagnlegar. Í öðrum tilvikum geta örverur fjölgað sér um of og valda þá sýkingum sem geta skaðað okkur. Á meðal þessara örvera eru ýmsar bakteríur og sveppir. Skipta má sveppum á líkama okkar í húðsveppi (dermatophytes) sem orsaka fótsveppi og gersveppi (t.d. candida albicans), en þeir síðarnefndu orsaka sjaldan fótsveppi.

Smelltu hér til að lesa greinina.....

Monday, January 12, 2009

Hvað er psoriasis

Bárður Sigurgeirsson húð- og kynsjúkdómalæknir og aðjúnkt við Háskóla Íslands hefur mikla og haldgóða þekkingu á húðsjúkdómum. Hann svarar hér nokkrum spurningum okkar um psoriasis.

Smelltu hér til að lesa greinina.....

Grein um kynfæravörtur

Kynfæravörtur eru einn algengasti kynsjúkdómur í heiminum í dag. Áætla má að á Íslandi greinist um 800 einstaklingar með slíkar vörtur árlega.
Algengið virðist svipað í nágrannalöndum okkar. Kynfæravörtur orsakast af veirusýkingu og er veiran sem vörtunum veldur kölluð HPV veira (Human Papilloma Virus).

Húðlæknarnir Steingrímur Davíðsson og Jón Hjaltalín Ólafsson yfirlæknir hafa skrifað yfirgripsmikla grein um kynfæravörtur.

Smelltu hér til að lesa greinina.....

Upplýsingar til sjúklinga sem hafa tekið þátt í svepparannsóknum

Hér má finna upplýsingar sem hafa óskað eftir að fá meðferð við sveppasýkingu í tánöglunum og hefur verið ávísað þér terbínafíni (Lamsil/terbinafin). Hér er um að ræða það lyf sem talið er best gegn slíkum sýkingum. Lyfið er talið mjög öruggt og aukaverkanir fágætar, en eins og með öll lyf þá geta aukaverkanir komið fram. Ég vil því biðja þig að lesa vel yfir kaflann hér á eftir um aukaverkanir og hætta tafarlaust notkun lyfsins ef slík einkenni koma fram og hafa síðar samband við okkur.

Lyfið er gefið í 3 mánuði samfellt og er tekin 1 tbl. daglega. Lyfið hleðst upp í nöglunum og er nægilegur styrkur í nöglunum í 2 mánuði eftir að lyfjatöku lýkur. Mælt er með mati á árangri fimm mánuðum eftir að meðferð hefst (lyf í 3 mánuði, í 2 mánuði ekkert lyf)

Smelltu hér til að lesa meira........

Saturday, January 10, 2009

Bæklingar um barnaexem

BARNAEXEM (ATOPISKT EXEM)


Exem er bólga í húðinni sem lýsir sér með roða, kláða, flögnun og stundum litlum vökvafylltum blöðrum. Við brátt exem er oft mikið um svona blöðrur, og ef þær rofna verður exemið vessandi.Verði exemið meira langvarandi verður húðin þykk og oft myndast í henni sprungur.

Atopiskt exem er eitt af mörgum tegundum exems. Talið er að um 10-30% allra vestrænna barna fái atopiskt exem. Oft hafa þessi börn einnig asthma og frjókorna og dýraofnæmi sem lýsir sér með nefrennsli og kláða ásamt kláða í augum.Exem, asthma og frjókornaofnæmi finnast oft í nánustu fjölskyldumeðlimum.

Hér fyrir neðan eru tenglar á 3 bæklinga þar sem fjallað er um barnaexem.

Orsök exemsins er ekki að fullu þekkt. Vitað er að ójafnvægi er í ónæmiskerfi þessara einstaklinga. Margir þeirra hafa í blóðinu sérstaka gerð ofnæmis mótefna (IgE) gegn td. frjókornum, dýrahárum, fæðutegundum, myglu, ryki og rykmaurum. Sum þessara mótefni geta haft þýðingu fyrir asthma og einkenni frá nefi og augum, en oft virðast þessi mótefni ekki valda neinum einkennum.

Smelltu hér til að lesa meira........

Friday, January 9, 2009

Æðavirk fæða

Að forðast æðavirka fæðu getur t.d. gagnast þeim sem fá roðaköst eða þjást að andlitsroða. Hér á eftir fylgir listi yfir fæðutegudir sem innihalda æðavirk efni
Print this Page