Friday, February 13, 2009

Meðferð með Aberela og Differin geli

Aberela krem inniheldur A-vitamínsýru (tretinoin) sem er öflugt húðlyf, oftast notað gegn s.k. unglingabólum (acne vulgaris). Differin gel inniheldur skylt efni sem heitir Adapalene.
Verkun lyfjanna er á þann veg að húðin flagnar og tepptir gangar fitukirtla opnast. Fitukirtlarnir dragast saman og innihald kirtlanna þrýstist út á yfirborð húðarinnar og haldast kirtlarnir samandregnir svo lengi sem lyfið er borið á húðina. Þetta hefur einnig þau áhrif að fíngerðar grunnar hrukkur minnka þegar húðin flagnar auk þess sem húðin þykknar nokkuð.

Aukaverkanir:


Kremið og gelið eru nokkuð ertandi fyrir húðina vegna flögnunarinnar. Roði í andliti, mest áberandi í byrjun meðferðar og í sjaldgæfum tilfellum er smávægileg aukning á nýmyndun háræða í andliti. Nýjar graftarbólur geta myndast í húðinni eftir 1-6 vikur vegna aukins þrýstings inni í fitukirtlunum. þessi afturför gengur yfir og er oft merki um að lyfin verki vel.!

Leiðbeiningar:


Til að draga úr helstu aukaverkunum lyfjanna er gott að fylgja eftirfarandi ráðum:

  • 1. vika : Kremið eða gelið er borið á í þunnu lagi annað hvert kvöld en þvegið af með volgu vatni eftir 2-4 tíma.
  • 2. vika : Kremið eða gelið er borið á annað hvert kvöld en þvegið af að morgni með volgu vatni
  • 3. vika og þar eftir er kremið/gelið borið á öll kvöld og húðin þvegin með volgu vatni að morgni.

  • Nuddið kreminu/gelinu ekki inn í húðina, berið það á í þunnu lagi.
  • Ef enginn roði eða flögnun á sér stað má bera kremið/gelið á í aðeins þykkara lagi og nudda því örlítið inn í húðina.
  • Til að draga úr ofþornun húðarinnar er ráðlegt að bera á rakakrem eftir að húðin er þvegin.
  • Ef húðin roðnar mikið má lengja bilið milli þess sem kremið er borið á.
  • Stundum er nauðsynlegt að nota önnur útvortis lyf samtímis, eða jafnvel lyf til inntöku.

Árangur meðferðarinnar kemur oft ekki í ljós fyrr en að 2-3 mánuðum liðnum.

Best er að nota kremið/gelið í mun lengri tíma og þá e.t.v. annan hvern dag.




1 comment:

  1. hæhæ veit ekki hvort eitthver sér þetta núna! enn hvaða förðunavörur meik púður er mælt með að nota með kreminu

    ReplyDelete