Tuesday, May 24, 2011

Háreyðing á ljósum hárum

Fyrir rúmu ári leitaði ég til húðlæknis vegna hárvaxtar í andliti. Hann ráðlagði mér frá því að gangast undir laser háreyðingu vegna þess hve ljóshærð ég er. Ég sá síðan auglýsingu frá snyrtistofu og hafði samband þangað. Þar var mér tjáð að sú tækni sem þar er notuð réði vel við hvít hár. Nú hef ég undirgengist lasermeðferð mánaðarlega, en ekki sér enn högg á vatni. Nú er ég farin að efast um hvað sér raunverulega rétt í þessum efnum, en þori ekki að fara aftur til húðlæknisins til að fá frekari upplýsingar.

Það eru margir þættir sem segja til um hvaða árangri megi búast við af lasermeðferð gegn óæskilegum hárvexti. Þar ræður miklu húðgerðin og háraliturinn. Einnig skiptir miklu máli reynsla og þekking þess sem framkvæmir meðferðina. Í flestum tilvikum ætti ekki að framkvæma lasermeðferð hjá þeim þar sem horfur á árangri eru slæmar eða mjög slæmar, sbr. töfluna hér að neðan. Í sumum tilvikum má þó ná nokkrum árangri hjá einstaklingum með ljóst hár, en oft er sá árangur ekki nema 40% af því sem þeir ná sem hafa góðar horfur. Í slíkum tilvikum er þó þörf á mun fleiri meðferðum, oft fleiri en 10 meðferðarskiptum. Einnig skiptir máli hvaða lasertæki eru notuð og er þá stundum kostur að hafa yfir fleiri en einni tegund lasertækja að ráða og eru þá erfiðustu sjúklingarnir meðhöndlaðir með mismunandi tækjum. Sjá annars töfluna hér að neðan. Einnig bíða fleiri fyrirspurnir varðandi laserháreyðingu.


No comments:

Post a Comment