Tuesday, May 24, 2011

Pillan og bólur

Á sínum tíma fór ég í meðferð vegna slæmrar húðar og var m.a. á Roaccutan. Á sama tíma byrjaði ég á getnaðarvarnarpillunni Gynera þar sem hormónasamsetningin hentaði vel með tilliti til minna húðvandamála. Nú er þannig mál með vexti að ég er búsett í Noregi tímabundið og þeir eru ekki með Gynera á sínum snærum. Í staðinn fékk ég Triquilar en eftir því sem ég hef lesið mig til þá eru ekki sömu hormón í þessum tegundum. Getur það haft slæm áhrif á húðina ef ég skipti yfir í þessa tegund? Með fyrirfram þökk og takk fyrir fræðandi vef.

Því miður höfum við ekki treyst okkur af ýmsum ástæðum til að svara fyrirspurnum um einstök sjúkdómatilvik og mun ég því fjalla almennt umbólur (acne) og getnaðarvarnarpilluna.
Mig langar að nota tækifærið og minnast á algengan misskilning um að bólur séu eingöngu sjúkdómur unglinganna. Rannsókn sem birtist í októberhefti tímarits bandaríska húðlæknafélagsins (JAAD) sýndi að af 749 fullorðnum einstaklingum á milli 25 og 58 ára,  voru 54% kvenna og  40% karla sem þjáðust af bólum í einhverjum mæli.  Karlhormónin (androgen), sem allir hafa, bæði karlar og konur (konur hafa minna) örva í flestum tilvikum fitukirtlana til að framleiða fitu. Hjá fólki með bólutilhneigingu sést oft að húðin er mjög feit og oft má einnig sjá fílapensla, sem eru tepptir fitukirtlar. Síðan kemur til sögunnar  baktería sem er á húð okkar flestra (p acnes) sem nær að fjölga sér mjög við þessar aðstæður. Sumir einstaklingar virðast einnig hafa eins hvers konar óþol gegn þessari bakteríu sem leiður þá til mikillar bólgu og  stundum kýlamyndunar í húðinni.
Það er rétt að “pillan” getur haft jákvæð áhrif á bólur. Flestar pillur sem eru á markaði eru samsettar af blöndu af kvenhormónum sem kallast estrogen og progestin. Þessi blanda hefur yfirleitt jákvæð áhrif á bólur. Ekki eru allar pillur eins áhrifaríkar að þessu leiti og til eru pillur sem eru með efnum sem vinna sérstaklega gegn karlkynshormónum og hafa því yfirleitt bestu áhrifin á bólur. Slíkar pillur kunna í sumum tilvikum að valda frekar aukaverkunum. Eldri tegundir af pillum, s.k. háskammtapillur geta valdið versnum á bólum.  Einnig getur s.k. mini-pilla sem eingöngu inniheldur progestin, valdið versnum á bólum.
Að lokum. Flestar getnaðarvarnarpillur hafa jákvæð áhrif á bólur, en þar er munur eftir hormónasamsetningu. Til eru pillur sem eru sérstaklega hannaðar til að vinna gegn bólum. Bárður Sigurgeirsson húðsjúkdómalæknir

No comments:

Post a Comment