Thursday, January 15, 2009

Unglingabólur

Acne vulgaris er húðsjúkdómur sem orsakast af breytingum í fitukirtlum húðarinnar. Fitumyndun í kirtlunum eykst, op þeirra þrengjast eða lokast. Bakteríur fjölga sér í fitukirtlunum og þá myndast bólga og gröftur. Fitumyndun kirtlanna er stjórnað af hormónum. Acne breytingar eru aðallega í andliti, en einnig á bolnum, aðallega herðum og bringu.

Breytingarnar eru af nokkrum gerðum:


  • Opnir fílapenslar, svartir
  • Lokaðir fílapenslar, hvítir
  • Papúlur, rauðar upphækkanir
  • Pústúlur, eins og graftarbólur
  • Djúpar breytingar

Acne er algengur sjúkdómur. Byrjar oftast á unglingsárum. Getur hafist mun seinna á æfinni. 35-40 % allra fá acne. Talið er að um 1 % karla og 5 % kvenna hafi umtalsverða acne við 40 ára aldur. Sjúkdómurinn byrjar stundum hjá fullorðnu fólki sem ekki hefur haft breytingar sem unglingar.

Orsakir:

Erfðþættir skipta máli. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skipti máli, en sumir sjúklingar upplifa versnun af vissum mat. Óhreinindi í húð orsaka ekki acne. Því er ekki hægt að þvo breytingarnar burt. Beint samband er milli acne og aukinnar fituframleiðslu í húð. Fituframleiðslan í húðinni stjórnast meðal annars af karlhormónum (androgenum). Karlar með acne hafa venjulega ekki aukið magn karlhormóna, en 50-75% kvenna með acne hafa ójafnvægi á kynhormónum.

Sýnt hefur verið fram á að útgönguop fitukirtla þrengjast hjá acne sjúklingum vegna aukinnar frumumyndunar þar. Góðkynja húðbakteríur setjast að í fitukirtlunum og fjölga sér (Propinibacterium acnes). Þessar bakteríur gefa frá sér efni sem laða að hvít blóðkorn, og valda þannig bólgubreytingum.

Meðferð:

Fyrir milda acne nægir útvortis meðferð. þær helstu eru :

Sýklalyf ( Zineryt, Dalacin) sem minnka fjölda baktería í fitukirtlunum.
  • Benzoyl Peroxid (Benoxyl, Panoxyl) sem fækka bakteríum og fjarlægja fílapensla.
  • A-Vítamínsýra ( Retin-A) sem aðallega hefur áhrif á fílapenslana.
  • Azelaic acid (Skinoren, Finacea) hefur bakteríudrepandi áhrif og einhver áhrif á fílapensla
  • Við verri acne eru oft gefin sýklalyf til inntöku. Þessi lyf fækka bakteríum í fitukirtlunum og eru einnig bólgueyðandi. Oftast eru gefin afbrigði af tetracýklínum ( Doxytab, Minocin, Tetracyklín). Einnig má gefa erythromycin ( Ery-Bas, Ery-Max) Sýklalyfin eru gefin í langan tíma, því að full virkni kemur oft ekki fram fyrr en eftir 3-4 mánuði.
  • Fyrir verstu tegund acne og þegar önnur meðferð hefur ekki áhrif er gefið lyfið Isotretinoin (Decutan, Roaccutan). Þetta lyf hefur áhrif á alla þætti acne myndunar. Talsverðar aukaverkanir eru af þessu lyfi, svo sem þurrkur í öllum slímhúðum, vöðvaverkir og þreyta. Einnig er lyfið skaðlegt fyrir fóstur.
  • Konum með acne er stunduð gefið hormónalyf sem dregur úr áhrifum karlkynshormóns ( Diane Mite). Þetta lyf ásamt sumum öðrum getnaðarvarnarpillum er því bæði getnaðarvörn og meðferð við bólum.
Fyrir alla meðferð gildir að hafa þolinmæði. Ekki er nóg að nota lyfin í nokkrar vikur og hætta síðan.

Nánari upplýsingar um unglingabólur má fá hér.

No comments:

Post a Comment